Aron með nýjan samning við AGF

Aron Jóhannsson í leik með AGF.
Aron Jóhannsson í leik með AGF. Ljósmynd/www.agf.dk

Danska knattspyrnufélagið AGF frá Árósum skýrði frá því í dag að það hefði gert nýjan samning til þriggja ára við markaskorarann Aron Jóhannsson, nýliðann í íslenska landsliðshópnum.

Aron, sem verður 22 ára í nóvember, kom til AGF frá Fjölni haustið 2010 og lék fyrst með liðinu eitt tímabil í 1. deild og er nú á öðru ári með því í úrvalsdeildinni. Hann hefur heldur betur slegið í gegn undanfarnar viku´r, hefur skorað 10 mörk í síðustu 5 leikjum og er markahæstur í úrvalsdeildinni með 11 mörk eftir 11 umferðir.

„Ég er afskaplega ánægður með að þetta skuli vera í höfn. Aron hefur gengið frábærlega undanfarið, skorað öll þessi mörk og hefur nú verið valinn í A-landsliðið. Það var því eðlilegt að við vildum framlengja við hann samninginn og ég er ánægður með að Aron skuli vilja halda áfram að spila með okkar liði og taka frekari framförum með AGF," sagði íþróttastjórinn Brian Steen Nielsen á vef AGF í dag.

„Ég var ekki í vafa um að það besta fyrir mig væri að halda áfram hjá AGF. Það er niðurstaðan sem ég vildi alltaf fá og ég er afar ánægður með að við skyldum ná saman. Ég hef tekið miklum framförum hjá AGF og vona að það haldi áfram. Félagið og Peter Sörensen (þjálfari) hafa sýnt mér traust og ég ber mikið traust til félagsins og Peters. AGF hefur verið númer eitt hjá mér og nú vona ég að bæði liðið og ég geti haldið áfram á því góða skriði sem nú er á okkur," sagði Aron á vef AGF.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert