Aron Jóhannsson, sem verið hefur á skotskónum með AGF í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu síðustu vikur, hefur orðið að draga sig út úr íslenska landsliðinu í knattspyrnu sem mætir Sviss og Albaníu síðar í þessari viku og í byrjun þeirrar næstu.
Þetta segir vefmiðillinn 433.is og hefur eftir Aroni að hann hafi átt í meiðslum í nára upp á síðkastið. Af þeim sökum vilji forráðamenn AGF ekki að hann taki þátt í leikjunum með íslenska landsliðinu.
Aron var valinn í íslenska landsliðshópinn í fyrsta sinn á síðasta fimmtudag. Hann var á skotskónum í gær þegar AGF vann SönderjyskE, 3:0, í dönsku úrvalsdeildinni. Aron skoraði þá eitt marka leiksins og hefur nú skorað 12 mörk í dönsku úrvalsdeildinni á leiktíðinni og trónir á toppnum yfir markahæstu leikmenn.