Ólíklegt er að miðtengiliðurinn Helgi Valur Daníelsson verði leikfær þegar íslenska landsliðið í knattspyrnu mætir Albaníu ytra í undankeppni HM í knattspyrnu á morgun.
Helgi Valur er með flensu og leið ekki vel á æfingunni í Tirana í morgun. Ákvörðun verður tekin í kvöld um þátttöku hans í leiknum á morgun.
Helgi Valur var í byrjunarliðinu í fyrstu tveimur leikjunum í keppninni og var einnig í byrjunarliðinu í síðustu leikjunum í undankeppni EM í fyrra.
Helgi leikur með AIK í Svíþjóð og skoraði fyrir liðið í Evrópudeildinni fyrir tæpri viku.