Ísland vann í kvöld glæsilegan útisigur á Albönum, 2:1, þegar þjóðirnar mættust í undankeppni heimsmeistaramóts karla í knattspyrnu á Qemel Stafa leikvanginum í Tirana, í leik sem einkenndist af geysilega erfiðum vallaraðstæðum.
Birkir Bjarnason kom Íslandi yfir á 18. mínútu með skalla af stuttu færi en Edgar Cani jafnaði fyrir Albani á 29. mínútu, 1:1.
Völlurinn fór nánast á flot undir lok fyrri hálfleiks og þeim síðari seinkaði um 20 mínútur en um tíma var hætta á að flauta þyrfti leikinn af.
Albanir sóttu meira lengi vel í seinni hálfleik en á 81. mínútu fékk Ísland aukaspyrnu rétt utan vítateigs þeirra. Gylfi Þór Sigurðsson tók hana og skoraði með glæsilegu skoti í stöng og inn, 2:1.
Ísland er þá komið með 6 stig í riðlinum eftir þrjá leiki og mætir Sviss á Laugardalsvellinum næsta þriðjudag. Sviss er með 6 stig og spilar gegn Noregi á heimavelli í kvöld.
Lið Íslands: Hannes Þór Halldórsson - Grétar Rafn Steinsson, Kári Árnason, Ragnar Sigurðsson, Ari Freyr Skúlason - Rúrik Gíslason, Birkir Bjarnason, Aron Einar Gunnarsson, Emil Hallfreðsson - Gylfi Þór Sigurðsson, Alfreð Finnbogason.
Varamenn: Gunnleifur Gunnleifsson, Haraldur Björnsson, Birkir Már Sævarsson, Bjarni Ólafur Eiríksson, Hólmar Örn Eyjólfsson, Jóhann Berg Guðmundsson, Eggert Gunnþór Jónsson, Guðjón Baldvinsson.
Lið Albaníu: Samir Ujkani - Armend Dallku, Lorik Cana, Mergim Mavraj, Andi Lila - Alban Meha, Ervin Bulku, Burim Kukeli, Gilman Lika - Edgar Cani, Armando Sadiku.