Miðjumaðurinn Helgi Valur Daníelsson mun ekki leika með Íslandi gegn Sviss í undankeppni HM í knattspyrnu á þriðjudag vegna veikindanna sem hafa hrjáð hann undanfarna daga, eftir því sem fram kemur á fótboltavefnum 433.is.
Helgi Valur fór með landsliðinu til Albaníu en hefur ekkert getað æft og varð að vera uppi á hótelherbergi í gær á meðan að félagar hans í landsliðinu unnu frækinn sigur á heimamönnum, 2:1. Hann mun ferðast heim til Svíþjóðar í stað þess að fara með landsliðinu til Íslands þar sem það mætir Sviss.
Annar miðjumaður, fyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson, verður í leikbanni gegn Sviss eftir að hafa fengið að líta sitt annað gula spjald í keppninni í leiknum í gær. Því verða á næstunni tveir leikmenn kallaðir inn í hópinn í þeirra stað eftir því sem fram kemur í frétt 433.is.