Engin ákvörðun hefur verið tekin um hvort svipta eigi Aron Einar Gunnarsson stöðu fyrirliða í íslenska karlalandsliðinu í knattspyrnu eftir því sem fram kom í máli þjálfarans Lars Lagerbäcks á blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í dag. Grétar Rafn Steinsson mun sinna hlutverkinu í næsta leik vegna leikbanns Arons.
Aron lét niðrandi ummæli falla um albönsku þjóðina í viðtali við vefsíðuna fotbolti.net í aðdraganda leiks Albaníu og Íslands sem fram fór á föstudagskvöld. Hann baðst síðar afsökunar á ummælunum.
Lagerbäck sagði á fundinum í dag að Aron hefði brugðist rétt við mistökum sínum. Íslenska liðið væri ungt að árum og þyrfti að læra af þeim.
Endanleg ákvörðun um framtíð Arons Einars sem fyrirliða mun ekki verða tekin fyrr en að loknum leik Íslands og Sviss á þriðjudagskvöld. Í þeim leik tekur Aron Einar út leikbann eftir að hafa fengið gult spjald gegn Albaníu á föstudag, og mun Grétar Rafn Steinsson því bera fyrirliðabandið.