Besta tímabil Sviss í rúma hálfa öld

Gökhan Inler er fyrirliði Sviss og miðjumaður Napoli.
Gökhan Inler er fyrirliði Sviss og miðjumaður Napoli. AFP

Svisslendingar stíga inná Laugardalsvöllinn í kvöld sem efsta liðið í E-riðli undankeppni heimsmeistaramótsins. Þeir mæta líka til leiks sem sigurstranglegasta liðið í þessum riðli og eru án efa staðráðnir í því að bæta sér upp vonbrigðin eftir að hafa misst af því að komast í úrslitakeppni EM á liðnu sumri.

Það var fyrsta stórmótið frá 2002 sem Svisslendingar komust ekki á. Þeir léku á HM 2006 og 2010 og á EM 2004 og 2008. Undanfarin tíu ár eru besti kaflinn í landsliðssögu Sviss frá miðri síðustu öld þegar landið átti lið í lokakeppni fjögurra heimsmeistaramóta í röð.

Leikmannahópur Svisslendinga er öflugur og meirihluti leikmannanna, 13 af 23 sem valdir voru fyrir leikina tvo, spilar með sterkum liðum í Þýskalandi og á Ítalíu.

Hópurinn er tiltölulega ungur því 15 leikmenn eru fæddir 1986 og síðar og þrír þeir yngstu árið 1992.

Einn hefur helst úr lestinni því framherjinn Eren Derdiyok, leikmaður Hoffenheim, er í leikbanni í kvöld vegna tveggja gulra spjalda.

Samherjar hjá Napoli og Sviss

Valon Behrami og fyrirliðinn Gökhan Inler, sem báðir leika með Napoli á Ítalíu, eru í stórum hlutverkum á miðjunni hjá Sviss. Behrami lék með West Ham í þrjú ár, var keyptur þangað í valdatíð Íslendinganna, og Inler hefur oft verið orðaður við ensk lið án þess að hafa stigið skrefið þangað.

Xerdan Shaqiri, hinn 21 árs gamli og eldfljóti kantmaður frá Bayern München, er leikmaður sem Íslendingar sáu mikið til í Evrópukeppni 21-árs landsliða í fyrra, sem og Granit Xhaka, tvítugur miðjumaður sem leikur með Mönchengladbach í Þýskalandi.

Djourou í vörninni

Þá þekkja áhugamenn um enska fótboltann ágætlega til Johans Djourou, varnarmanns Arsenal, en hann er lykilmaður í vörn Svisslendinga. Varnartengiliðurinn Gelson Fernandes er líka með reynslu frá Englandi en hann lék með Manchester City í tvö ár og spilar nú með Sporting Lissabon í Portúgal. vs@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert