Hingað til hafa Íslendingar ekki sótt gull í greipar Svisslendinga í A-landsleikjum þjóðanna í fótbolta. Þær hafa reyndar ekki mæst í 17 ár en hafa tvívegis verið saman í riðli í undankeppni Evrópumótsins. Sviss vann alla fjóra leiki liðanna, þegar leikið var um sæti á EM 1980 og 1996.
Þjóðirnar mættust með 18 daga millibili í maí og júní 1979. Sviss vann fyrri leikinn í Bern, 2:0, en eftir jafna viðureign þar sem Ásgeir Sigurvinsson þótti besti maður vallarins.
Seinni leikurinn var á Laugardalsvellinum og aftur vann Sviss, nú 2:1. Þá komst Ísland yfir með marki Janusar Guðlaugssonar í upphafi síðari hálfleiks, eftir undirbúning Arnórs Guðjohnsens, en Svisslendingar náðu að svara því í tvígang. Báðir leikirnir voru tiltölulega jafnir og frekar súrt að fá ekkert útúr þeim.
Þjóðirnar mættust aftur í nóvember 1994, í Lausanne. Sviss var sterkari aðilinn og vann 1:0 með marki frá Thomas Bickel. Sviss átti auk þess tvö sláarskot en Arnar Gunnlaugsson var síðan nærri því að jafna metin.
Seinni leikurinn var á Laugardalsvellinum í ágúst 1995. Sviss skoraði tvívegis á fyrstu 18 mínútunum og vann allöruggan sigur, 2:0. Sviss vann riðilinn og lék á EM 1996. vs@mbl.is