Íslenska landsliðið í fótbolta tapaði fyrir því svissneska, 2:0, í leik liðanna í undankeppni HM 2014 á Laugardalsvellinum í kvöld. Það verður því Sviss sem vermir efsta sæti riðilsins næstu fimm mánuðina.
Svissneska liðið var betra í leiknum, var meira með boltann og sóknarleikur þess var beinskeittari en hjá Íslendingum. Aftur á móti tókst gestunum ekki að hitta markið fyrr en í seinni hálfleik.
Íslenska liðið var of aftarlega á vellinum í fyrri hálfleik og reyndi að beita skyndisóknum. Gylfi Þór Sigurðsson átti þó fínt skot á mark úr aukaspyrnu og Alfreð Finnbogason komst í gott færi sem Benaglio varði vel í marki gestanna.
Í seinni hálfleik lék íslenska liðið mun betur en það var Sviss sem komst yfir með glæsilegu marki Tranquillo Barnetta á 65. mínútu. Eftir mikinn darraðadans í teignum og fyrir utan hann komst Barnetta í fínt skotfæri og smellti boltanum í markvinkilinn fjær.
Birkir Bjarnason fór á kostum í leiknum og átti skot í stöng og þá varði Benaglio frábærlega skalla Alfreðs Finnbogasonar úr dauðafæri.
Svisslendingar fóru í sókn eftir færi Alfreðs og skoruðu annað mark. Okkar menn gleymdu sér í varnarleiknum og Mario Gavranovich skoraði af stuttu færi 79. mínútu, 2:0.
Ísland gerði hvað það gat til að skora en allt kom fyrir ekki og súrt tap því staðreynd. Sviss er eftir í riðlinum með 10 stig eftir fjóra leiki en Ísland er í þriðja sæti með sex stig.
Nánari umfjöllun um leikinn verður í Morgunblaðinu í fyrramálið en myndbandsviðtöl koma inná mbl.is seinna í kvöld.
Lið Íslands: (4-4-2) Mark: Hannes Þór Halldórsson. Vörn: Grétar Rafn Steinsson, Kári Árnason, Ragnar Sigurðsson, Ari Freyr Skúlason. Miðja: Rúrik Gíslason, Eggert Gunnþór Jónsson, Emil Hallfreðsson, Birkir Bjarnason. Sókn: Gylfi Þór Sigurðsson, Alfreð Finnbogason.
Varamenn: Gunnleifur Gunnleifsson, Haraldur Björnsson, Birkir Már Sævarsson, Bjarni Ólafur Eiríksson, Hólmar Örn Eyjólfsson, Jóhann Berg Guðmundsson, Guðjón Baldvinsson, Pálmi Rafn Pálmason, Rúnar Már S. Sigurjónsson.
Lið Sviss: (4-5-1) Mark: Diego Benaglio. Vörn: Stephan Lichsteiner, Johan Djourou, Steve Von Bergen, Ricardo Rodriguez. Miðja: Xherdan Shaqiri, Valon Behrami, Granit Xhaka, Gökhan Inler, Tranquillo Barnetta. Sókn: Mario Gavranovich.
Varamenn: Yann Sommer, Marco Wölfli, Reto Ziegler, Jonathan Rossini, Marco Mathys, Valentin Stocker, Blerim Dzemaili, Gelson Fernandes, Admin Mehmedi, Nassim Ben Khalifa, Timm Klose.