Eiður skoraði aftur fyrir Cercle

Eiður Smári Guðjohnsen fer vel af stað í Belgíu.
Eiður Smári Guðjohnsen fer vel af stað í Belgíu. mbl.is/Eggert

Eiður Smári Guðjohnsen skoraði mark Cercle Brugge í kvöld þegar liðið beið lægri hlut fyrir Mechelen, 1:2,  í belgísku A-deildinni í knattspyrnu.

Hann hefur þar með skorað í fyrstu tveimur leikjum sínum í Belgíu en Eiður skoraði í fyrsta leik sínum á dögunum, þá úr vítaspyrnu, nýkominn inná sem varamaður.

Í kvöld kom hann inn í byrjunarliðið og á 67. mínútu jafnaði hann metin í 1:1 eftir hornspyrnu. Mechelen skoraði aftur á 77. mínútu og tryggði sér sigurinn.

Arnar Þór Viðarsson var að vanda í byrjunarliði Cercle en honum var skipt af velli um miðjan síðari hálfleik.

Cercle situr áfram á botni deildarinnar og er aðeins komið með 4 stig.

Stefán Gíslason og félagar í OH Leuven unnu óvæntan og magnaðan sigur á toppliði Club Brugge, 4:1. Stefán spilaði allan leikinn og OH Leuven er nú með 17 stig í 6. sætinu, fimm stigum á eftir Club Brugge sem er áfram í efsta sætinu.

Ólafur Ingi Skúlason lék allan leikinn með Zulte-Waregem sem lá heima gegn Lokeren, 0:3. Zulte-Waregem er í 5. sætinu með 19 stig en liðið hefði náð Club Brugge á toppnum með sigri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka