Ísland lagði Úkraínu að velli, 3:2, í fyrri umspilsleik þjóðanna um sæti í lokakeppni Evrópumóts kvenna í knattspyrnu sem fram fór í úkraínsku borginni Sevastopol í dag. Liðin mætast aftur á Laugardalsvellinum á fimmtudaginn og þá nægir Íslandi jafntefli, jafnvel eins marks tap, til að komast í lokakeppnina í Svíþjóð næsta sumar.
Íslenska liðið fékk óskabyrjun því Katrín Ómarsdóttir skoraði strax á 5. mínútu og Hólmfríður Magnúsdóttir bætti við marki, 2:0, á 25. mínútu.
Tetyana Romanenko minnkaði muninn í 2:1 fyrir hlé og Tetyana Chorna jafnaði metin í byrjun síðari hálfleiks, 2:2.
Það var síðan Margrét Lára Viðarsdóttir sem skoraði sigurmark Íslands á 64. mínútu, 3:2.
Þessi þrjú mörk Íslands þýða að Úkraínu nægir ekki að vinna 1:0 eða 2:1 á Laugardalsvellinum, heldur verður að ná þar tveggja marka sigri, eða þá vinna leikinn 4:3 til að slá Ísland útúr keppninni.
Lið Íslands: Þóra B. Helgadóttir - Dóra María Lárusdóttir, Sif Atladóttir, Katrín Jónsdóttir fyrirliði, Hallbera Guðný Gísladóttir - Edda Garðarsdóttir, Katrín Ómarsdóttir, Sara Björk Gunnarsdóttir - Fanndís Friðriksdóttir, Margrét Lára Viðarsdóttir, Hólmfríður Magnúsdóttir.
Varamenn: Guðbjörg Gunnarsdóttir (m), Sandra María Jessen, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, Harpa Þorsteinsdóttir, Rakel Hönnudóttir, Dagný Brynjarsdóttir, Glódís Perla Viggósdóttir.
Lið Úkraínu: Iryna Zvarych - Olga Basanska, Tetyana Chorna, Valentyna Kotyk, Lyudmyla Pekur, Olena Khodyreva, Vira Dyatel, Tetyana Romanenko, Alla Lyshafay, Daryna Apanaschenko, Daryna Vorontsova.
Varamenn: Kateryna Samson (m), Iryna Vasylyuk, Olga Ovdiychuk, Yulia Kornievets, Anastasya Sverdlova, Valeriya Aloshycheva, Nadiia Khavanska.