Íslenska kvennalandsliðinu í knattspyrnu tókst í kvöld að tryggja sér þáttökurrétt í lokakeppni Evrópumótsins í annað skiptið í röð. Ísland og Úkraína mættust í seinni umspilsleik liðanna um sæti í lokakeppninni á Laugardalsvellinum klukkan 18.30. Ísland sigraði 3:2 eftir fjörugan leik en Ísland vann einnig fyrri leikinn, 3:2. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.
Lokakeppnin fer fram í Svíþjóð næsta sumar en þar spila einmitt margar landsliðskvennanna með félagsliðum í sænsku úrvalsdeildinni.
Leikurinn var nánast endurtekið efni frá því í Úkraínu um síðustu helgi. Ísland komst snemma í 2:0 en Úkraínu tókst að jafna. Ísland átti þó lokaorðið og skoraði síðasta mark leiksins rétt eins og í fyrri leiknum.
Markamaskínan Margrét Lára Viðarsdóttir kom Íslandi á bragðið strax á 8. mínútu. Hver önnur? Katrín Ómarsdóttir bætti við öðru marki á 12. mínútu og var það sérlega glæsilegt. Vira Dyatel skoraði fyrir Úkraínu á 35. mínútu og staðan var 2:1 að loknum fyrri hálfleik. Daryna Apanachenko jafnaði í 2:2 á 71. mínútu. Varamaðurinn Dagný Brynjarsdóttir skoraði sigurmarkið á 76. mínútu en hún hafði komið inn á sem varamaður aðeins þremur mínútum áður.
Hér að neðan má sjá beina textalýsingu frá leiknum en viðbrögð frá landsliðskonunum verður að finna á mbl.is síðar í kvöld.
Lið Íslands:
Mark: Þóra B. Helgadóttir. Vörn: Dóra María Lárusdóttir, Sif Atladóttir, Katrín Jónsdóttir fyrirliði, Hallbera Guðný Gísladóttir. Miðja: Edda Garðarsdóttir, Katrín Ómarsdóttir, Sara Björk Gunnarsdóttir. Sókn: Fanndís Friðriksdóttir, Margrét Lára Viðarsdóttir, Hólmfríður Magnúsdóttir.
Varamenn: Guðbjörg Gunnarsdóttir (m), Sandra María Jessen, Dagný Brynjarsdóttir, Rakel Hönnudóttir, Harpa Þorsteinsdóttir, Glódís Perla Viggósdóttir, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir.
Lið Úkraínu:
Iryna Zvarych - Olga Basanka, Tetyana Chorna, Valentyna Kotyk, Lyudmyla Pekur, Olena Khodyreva, Vira Dyatel, Tetyana Romanenko, Alla Lyshafay, Daryna Apanachenko, Daryna Vorontsova.
Varamenn: Kateryna Samson (m), Iryna Vasylyuk, Olga Ovdiychuk, Yulia Kornievets, Anastasya Sverdlova, Valeriya Aloshycheva, Nadiia Khavanska.