Eyjamaðurinn Gunnar Heiðar Þorvaldsson er níundi besti leikmaðurinn í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á þessu keppnistímabli, samkvæmt niðurstöðu sérfræðinga Expressen.
Gunnar Heiðar hefur skorað 16 mörk fyrir Norrköping í deildinni og er næst markahæstur allra leikmanna.
„Fyrrum markakóngurinn frá Halmstad er á skotskónum á ný," segir m.a. í umsögn Expressen um Gunnar Heiðar.
Besti leikmaðurinn er Waris Majeed frá Häcken sem er markahæstur í deildinni með 22 mörk og er sagður eiga heiðurinn af því að lið hans geti enn orðið sænskur meistari.
Alfreð Finnbogason er í 17. sæti á listanum þrátt fyrir að hann hafi farið frá Helsingborg um miðjan ágúst en þá hafði hann skorað 12 mörk í 17 leikjum.
Ari Freyr Skúlason, fyrirliði Sundsvall, er þriðji Íslendingurinn sem kemst á 50 manna listann hjá Expressen en hann er í 47. sæti.