Åtvidaberg og Sundsvall hófu leik að nýju um hádegi og léku síðustu 27 mínúturnar í viðureign liðanna í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, en hætta þurfti leiknum vegna rafmagnsleysis í gærkvöld.
Þá var staðan 1:0 fyrir Åtvidaberg en áhorfendur fengu meira fyrir peninginn í dag því þrjú mörk voru skoruð á þessum stutta tíma, öll á síðustu 10 mínútunum. Sundsvall skoraði þá tvívegis en heimamenn jöfnuðu síðan í 2:2 þegar tvær mínútur voru eftir.
Ari Freyr Skúlason fyrirliði og Jón Guðni Fjóluson léku allar 27 mínúturnar með Sundsvall í dag, rétt eins og 63 mínúturnar í gær. Ari var kominn með gult spjald sem hann fékk tveimur mínútum áður en rafmagnið fór, og Jón Guðni fékk gula spjaldið mínútu eftir að leikurinn hófst að nýju. Ari verður fyrir vikið í banni í lokaumferðinni á sunnudaginn.
Fyrir hana er Sundsvall í 14. og þriðja neðsta sæti en ef liðið endar þar þarf það að fara í umspil gegn Halmstad um sæti í úrvalsdeildinni. Sundsvall er með 29 stig, Syrianska er með 31 og Gefle 32 stig. Gefle á eftir að mæta GAIS í dag og getur bjargað sér með því að ná í stig.
Í lokaumferðinni er Sundsvall á heimavelli gegn Häcken, sem er í baráttu um sænska meistaratitilinn, og á því afar erfitt verkefni fyrir höndum. Syrianska á heimaleik gegn Kalmar sem er um miðja deild og hefur ekki að neinu að keppa. Gefle á heimaleik við Helsingborg í lokaumferðinni.