Lars Lagerbäck, landsliðsþjálfari í knattspyrnu, valdi ekki þá leikmenn sem verða í banni gegn Slóveníu í næsta leik í undankeppni HM til að spila vináttulandsleikinn gegn Andorra í næstu viku.
Þetta kemur fram í viðtali við hann á vef KSÍ. Þeir Rúrik Gíslason, Grétar Rafn Steinsson og Kári Árnason taka allir út bann í leiknum í Slóveníu 22. mars. Lagerbäck segir að þar sem ekki sé komið á hreint hvort um annan vináttulandsleik verði að ræða áður en honum kemur, sé leikurinn í Andorra sá eini sem sé fastur í hendi fram að þeim tíma. Þess vegna velji hann aðeins þá leikmenn sem geti spilað í Slóveníu.
Þá kemur fram að Ari Freyr Skúlason og Emil Hallfreðsson séu ekki í hópnum í Andorra vegna verkefna með félagsliðum sínum. Ari Freyr þarf að spila umspilsleik með Sundsvall gegn Halmstad um sæti í sænsku úrvalsdeildinni daginn eftir leikinn í Andorra.
Lagerbäck valdi ekki Eið Smára Guðjohnsen og segir að hann hafi staðið sig vel í Belgíu og skorað í hverjum leik. Hann viti hinsvegar hvað hann getur og vilji einfaldlega skoða leikmenn eins og Matthías Vilhjálmsson aðeins betur. „Við fylgjumst hinsvegar vel með Eiði og hann gæti alveg komið inn á næsta ári," segir landsliðsþjálfarinn.