„Þetta tímabil gekk alveg ótrúlega vel og það er virkilega gaman hvað þetta hélt út bæði hjá mér og liðinu. Það voru allir að spá okkur í fallbaráttu en við sönnuðum heldur betur að við erum betri en þessir sérfræðingar héldu,“ segir landsliðsframherjinn Gunnar Heiðar Þorvaldsson í viðtali við Morgunblaðið en lið hans Norrköping blés á hrakspár og endaði tímabilið í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu sem lauk í fyrradag í fimmta sæti.
„Við vorum í efri hlutanum í allt sumar og að enda í fimmta sæti, sjö stigum á eftir toppliðinu, er virkilega gott og eflaust einhverskonar met. Efstu sex liðin skera sig svolítið úr og við erum hluti af þeim pakka. Við vissum að við vorum með svona gott lið en vorum ekkert að flagga því fyrir mót,“ segir Gunnar Heiðar.
Gunnar Heiðar skoraði sigurmark Norrköping í lokaumferðinni í gær gegn Mjällby en það var 17. mark hans í deildinni. Hann endaði næstmarkahæstur, sjö árum eftir að hann varð markakóngur í deildinni með Halmstad. Það var einmitt þjálfari hans hjá Halmstad sem sótti Gunnar til Vestmannaeyja í fyrravor þegar hann var búinn að semja við ÍBV og ætlaði að spila í Pepsi-deildinni hér heima.
„Ég kom heim eftir erfið ár í Esbjerg og ákvað að byrja upp á nýtt. En svo kom þetta upp með Norrköping þar sem fyrrverandi þjálfarinn minn hjá Halmstad er. Ég neitaði honum þrisvar til fjórum sinnum en hann hætti ekki að tuða karlinn og maður þakkar honum fyrir það í dag. Ég ákvað að slá til og kom rétt fyrir mót í fyrra. Þá hafði ég ekki spilað lengi eftir tímann í Esbjerg og hafði lítið æft,“ segir Gunnar Heiðar.
Sjá allt viðtalið við Gunnar Heiðar í Morgunblaðinu í dag.