„Þegar svona vel gengur er ekki hægt að kvarta yfir miklu. Auðvitað vill maður alltaf spila alla leiki frá upphafi til enda en ég er þokkalega sáttur við minn hlut, enda getur staðan varla verið betri hjá okkur,“ sagði Ólafur Ingi Skúlason, miðjumaður belgíska liðsins Zulte-Waregem, sem hefur komið mjög á óvart það sem af er tímabilinu.
Zulte-Waregem lagði stórlið Club Brugge á útivelli, 1:0, á sunnudaginn og er efst í deildinni, með sama stigafjölda og margfaldir meistarar Anderlecht.
Þetta er annað tímabil Ólafs með Zulte-Waregem, sem keypti hann af SönderjyskE í Danmörku sumarið 2011. Um sama leyti slasaðist hann á hné í landsleik gegn Dönum á Laugardalsvellinum og þurfti að fara í tvær aðgerðir, sem þýddu að hann missti framan af síðasta tímabili.
„Ég er alheill og frískur, enda lendi ég yfirleitt bara í stórum meiðslum eða engum,“ sagði Ólafur léttur í lund þegar Morgunblaðið spjallaði við hann í gær.
Hann hefur spilað 12 af fyrstu 14 leikjum liðsins í haust og verið í byrjunarliðinu í átta þeirra. „Ég er líklega í best mönnuðu stöðunni í liðinu. Við spilum með tvo varnartengiliði í leikaðferðinni 4-2-3-1, og við erum fjórir um þessar tvær stöður. Það fer eftir dagsformi eða mótherjum hverjir tveir okkar byrja inná hverju sinni.
Sjá allt viðtalið við Ólaf Inga í Morgunblaðinu í dag.