Bo Henriksen, fyrrverandi leikmaður Vals, Fram og ÍBV, er nú orðaður við þjálfarastarfið hjá Sarpsborg, sem verður nýliði í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á næsta ári.
Haraldur Björnsson ver mark Sarpsborg og félagið samdi við Guðmund Þórarinsson frá ÍBV til þriggja ára fyrir stuttu.
Bo Henriksen er 37 ára Dani og lék með bæði Val og Fram sumarið 2005 og spilaði síðan með Eyjamönnum árið eftir. Hann hefur náð góðum árangri sem þjálfari Brönshöj í Danmörku, kom liðinu uppí B-deildina og þar er það nú í 6. sæti.
Sporten.dk kveðst hafa heimildir um að Henriksen sé annar tveggja þjálfara sem Sarpsborg hyggst velja á milli. „Ég get ekki sagt mikið en það er að sjálfsögðu alltaf áhugavert þegar félag í efstu deild sýnir manni áhuga. En ég er mjög rólegur, ég á enn ár eftir af samningi mínum við Brönshöj og þar líður mér afskaplega vel,“ segir Henriksen við sporten.dk.
Þar er sagt að bæði Randers í Danmörku og Strömsgodset í Noregi hafi áður sýnt áhuga á að fá Henriksen til sín.