Sölvi Geir Ottesen, varnarmaðurinn sterki í íslenska landsliðinu í knattspyrnu og leikmaður danska liðsins FC Köbenhavn, hefur ekki verið í náðinni hjá belgíska þjálfaranum Ariel Jacobs. Sölvi hefur fengið fá tækifæri með Kaupmannahafnarliðinu á leiktíðinni. Hann hefur aðeins fengið að spreyta sig í fimm leikjum af 18 í deildinni og í síðustu 10 deildarleikjum hefur hann aðeins einu sinni komið inná.
Sölvi hefur ekki verið í leikmannahópnum í síðustu þremur leikjum liðsins og það sama verður uppi á teningnum í kvöld þegar FC Köbenhavn mætir Bröndby í átta liða úrslitum bikarkeppninnar.
„Ég er bara í frystiklefanum. Það eru engin meiðsli að hrjá mig. Ég fæ bara ekki að spila,“ sagði Sölvi við Morgunblaðið í gær en samningur hans við FC Köbenhavn rennur út eftir tímabilið og liggur því beinast við að spyrja hann hvort hann sé á förum frá félaginu.
„Þó svo að staða mín gagnvart liðinu líti ekkert vel út þá legg ég mig 100% fram en það virðist ekki duga til. Það tók nýr þjálfari við liðinu í sumar. Allir þjálfarar eiga sína uppáhaldsleikmenn en ég virðist ekki vera einn af þeim hjá þessum.“
Sjá nánar viðtal við Sölva í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.