Chelsea getur brotið blað í sögu Meistaradeildarinnar og líklegt er að svo verði en takist Chelsea ekki að komast í 16-liða úrslitin annað kvöld verður það í fyrsta sinn sem ríkjandi Evrópumeistarar komast ekki í útsláttarkeppnina.
Eftir 3:0 tap á móti Juventus hanga titilvonir Chelsea á bláþræði og möguleikinn á komast áfram er ekki í lengur í höndum leikmanna Chelsea. Til þess að Chelsea komist áfram verður liðið að leggja Danmerkurmeistara Nordsjælland að velli á Stamford Bridge og stóla á að Juventus tapi leik sínum fyrir Shakhtar Donetsk í Úkraínu. Þar með myndi Chelsea ná öðru sætinu í riðlinumm
Chelsea hefur gengið afar illa síðustu vikurnar. Liðið hefur ekki náð að vinna í sjö síðustu leikjum í ensku úrvalsdeildinni og fara þarf 17 ár aftur í tímann til að finna slakari árangur hjá Lundúnaliðinu í efstu deild.
„Það jákvæða er að Shakhtar er með fullt af góðum leikmönnum og það eru allir að tala um þá. Nú verða þeir að sýna heiminum að þeir séu góðir,“ sagði Rafael Benítez, stjóri Chelsea, sem gerði Liverpool að Evrópumeisturunum árið 2005.