Eyjólfur Héðinsson hélt uppteknum hætti með SönderjyskE í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld og skoraði seinna mark liðsins þegar það gerði jafntefli, 2:2, við Bröndby á heimavelli sínum í Haderslev.
Eyjólfur jafnaði, 2:2, þegar 20 mínútur voru eftir af leiknum og skoraði þar með í fjórða leik sínum í röð en hann hefur nú gert sex mörk í 11 leikjum með liðinu í deildinni á þessu tímabili. Hann missti úr níu leiki í haust vegna meiðsla.
Eyjólfur og Hallgrímur Jónasson léku báðir allan leikinn með SönderjyskE. Liðið er nú með 21 stig í 8. sæti deildarinnar en útlit er fyrir harða fallbaráttu. Fyrir neðan eru Esbjerg og Midtjylland með 19 stig og Bröndby og Silkeborg sem bæði eru með 17 stig í neðstu sætunum.