Eiður Smári Guðjohnsen fékk rauða spjaldið í kvöld þegar lið hans, Cercle Brugge, sótti heim Lierse í botnslag í belgísku A-deildinni í knattspyrnu.
Eiður fékk gula spjaldið á 81. mínútu og síðan rauða spjaldið á 83. mínútu, þegar staðan var 1:0 fyrir Lierse. Tíu leikmönnum Cercle tókst að jafna metin í lokin og síðan fékk annar leikmaður liðsins rauða spjaldið áður en yfir lauk. Lokatölur urðu 1:1.
Eiður var í byrjunarliði Cercle en Arnar Þór Viðarsson var á meðal varamanna og kom ekkert við sögu í leiknum.
Lierse er með 17 stig og Cercle 13 í tveimur neðstu sætum deildarinnar.