Mourinho: Ekki áhyggjufullur um starf mitt

José Mourinho.
José Mourinho. AFP

Spjótin beindust að José Mourinho þjálfara Real Madrid eftir ósigur liðsins gegn Málaga í spænsku 1.deildinni í knattspyrnu í kvöld.

Þetta var fyrsti sigur Málaga á Real Madrid í 29 ár og eftir ósigurinn eru Spánarmeistararnir í þriðja sæti deildarinnar, 16 stigum á eftir toppliði Barcelona.

Mourinho sagði við fréttamenn eftir leikinn að hann væri ekkert á förum frá félaginu.

„Ég er ekkert áhyggjufullur um starf mitt og ég mun ekki segja segja upp. Ég er enginn krakki. Ég veit að úrslitin telja en við höfum ekki haft heppnina með okkur í síðustu leikjum,“ sagði Portúgalinn við fréttamenn eftir leikinn.

Sú ákvörðun Mourinho að setja fyrirliðann Iker Casillas út úr byrjunarliðinu vakti að vonum gríðarlega athygli en í fyrsta skipti í 10 ár mátti markvörðurinn sætta sig við að verma varamannabekkinn. Mourinho ákvað að láta Antonio Adan standa á milli stanganna.

„Þessa stundina finnst mér og mínum aðstoðarmönnum Adan vera betri en Iker. Við höfum átt í vandræðum á mörgum svæðum og ekki síst í öftustu varnarlínu.

Þjálfarinn þarf að greina hvað sé best að gera, hvaða kerfi skuli leika eftir og hvernig liðið á vera. Þetta hef ég gert. Á síðasta tímabili unnum við deildina með miklum mun en nú gengur okkur ekki vel. Ég er ekki ánægður en þetta er raunveruleikinn,“ sagði Mourinho.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert