Hollenska knattspyrnufélagið AZ Alkmaar hefur gert AGF í Danmörku tilboð í framherjann Aron Jóhannsson, samkvæmt frétt í Ekstrabladet í dag.
Blaðið segir að samkvæmt heimildarmönnum tengdum hollenska félaginu sé búið að senda AGF tilboð sem hljóðar uppá 1,5 milljón evrur, eða um 260 milljónir íslenskra króna, og að Árósafélagið sé tilbúið til að selja Aron. Framhaldið ráðist síðan af ýmsum smáatriðum í kringum söluna, m.a. að íþróttastjóri AGF, Brian Steen Nielsen, vilji tryggja sínu félagi ágóða ef AZ selur Aron síðar meir.
Í heildina geti verðmæti sölunnar á Aroni numið um 2 milljónum evra, eða um 350 milljónum íslenskra króna.
Aron hefur skorað 14 mörk fyrir AGF í úrvalsdeildinni það sem af er þessu tímabili og er markahæstur í deildinni ásamt Andreas Cornelius hjá FC Köbenhavn.
Jóhann Berg Guðmundsson leikur með AZ og þar hafa einnig spilað þeir Kolbeinn Sigþórsson, Aron Einar Gunnarsson, Jóhannes Karl Guðjónsson og Grétar Rafn Steinsson.