Aron Jóhannsson skrifaði í morgun undir samning við hollenska knattspyrnufélagið AZ Alkmaar til hálfs fimmta árs, eða til vorsins 2017, en félagið kaupir hann af AGF í Danmörku. AZ tilkynnti um þetta á vef sínum rétt í þessu.
Aron gekkst undir læknisskoðun í gær, eins og áður hefur komið fram, og gekk endanlega frá sínum málum í morgun.
„Við erum mjög ánægðir með að geta bætt Aroni Jóhannssyni strax í okkar hóp. Aron er sterkur og fjölhæfur sóknarmaður með markanef og það er meira en að segja það að vera markahæstur í Danmörku. Hann er ungur og hæfileikaríkur leikmaður sem við fjárfestum í og hyggjumst gera enn betri. Hann vildi líka endilega koma til AZ,“ sagði Earnest Stewart, yfirmaður knattspyrnumála hjá AZ, á vef félagsins.
„Ég er mjög ánægður með að þetta skuli allt vera formlega í höfn og get varla beðið eftir því að hitta hópinn. Ég hef heyrt margt gott um AZ, enda hafa margir Íslendingar gert góða hluti hérna. Ég tek með þessu skref til stærra félags í stærri deild, sem býður uppá alla aðstöðu fyrir mig til að bæta mig sem leikmaður. Ég á erfitt með að lýsa sjálfum mér sem sóknarmanni en ég er sterkastur í vítateignum. Mitt markmið hjá AZ er að verða betri leikmaður og skora mikið af mörkum," sagði Aron á vef AZ.