Ari Freyr Skúlason, landsliðsmaður í knattspyrnu, leynir ekki vonbrigðum sínum yfir því að komast ekki burt frá sænska félaginu Sundsvall eftir að það féll úr úrvalsdeildinni í haust.
Ari, sem var fyrirliði Sundsvall á síðasta ári sagði strax eftir tímabilið að hann vildi losna frá félaginu og spila áfram í efstu deild, og nokkur lið þar hafa reynt að fá hann í sínar raðir, m.a. Norrköping, Djurgården og Randers. Hann á eitt ár eftir af samningi sínum en hefur sagt að forráðamenn Sundsvall hefðu lofað því að hann gæti farið. Nú hafi þeir ekki staðið við það.
„Ég er gífurlega vonsvikinn með hvernig þetta hefur gengið fyrir sig. Forráðamenn Sundsvall hafa læst mig inni með þremur lyklum og hent þeim. Félagið krefst þess að fá alltof mikið fyrir mig," sagði Ari við Sundsvall Tidningar í dag.
Hann var spurður hvaða áhrif þetta hafi á hann í daglegu lífi hjá Sundsvall. „Þetta er vinnan mín og ég er samningsbundinn í eitt ár í viðbót," svaraði Ari.