2:0 tap fyrir Rússum á Marbella

Alfreð Finnbogason í baráttu við Igor Denisov.
Alfreð Finnbogason í baráttu við Igor Denisov. AFP

Íslendingar töpuðu fyrir sterku liði Rússa, 2:0 í vináttulandsleik í knattspyrnu sem háður var á Marbella á Spáni í kvöld.

Rússar voru sterkari nær allan tímann en það tók þá 43. mínútur apð brjóta ísinn þegar Roman Shirokov og það var síðan varamaðurinn Oleg Shatov sem innsiglaði þægilegan og öruggan sigur Rússa með öðru marki um miðjan seinni hálfleik. Íslenska liðið náði lítið sem ekkert að ógna marki Rússa en þó fékk Eiður Smári Guðjohnsen ágætt færi á 54. mínútu en skot hans var mislukkað.

90+2 Leiknum er lokið með sanngjörnum sigri Rússa, 2:0.

90+1 Miðvörðurinn Ragnar Sigurðsson átti ágæt skot en boltinn yfir rússneska markið.

80. Arnór Smárason og Helgi Valur Daníelsson eru komnir inná fyrir Alfreð Finnbogason og Eið Smára Guðjohnsen. Rússar eru nær því að bæta við þriðja markinu en Íslendingar að komast á blað.

66. MARK!! Varamaðurinn Oleg Shatov skoraði með föstu skoti rétt utan markteigs eftir mistök í íslensku vörninni. Nú verður á brattann að sækja fyrir íslenska liðið. Shatov komst einn á auðan sjó og þrumaði boltanum í netið með tánni. Óverjandi fyrir Hannes Þór.

64. Markaskorarinn Roman Shirokov var í ágætu færi í vítateignum en hann skaut sem betur fer framhjá markinu.

60. Eins og um var samið fer Kolbeinn Sigþórsson af velli. Jóhann Berg Guðmundsson leysir hann af hólmi.

54. Íslendingar fengu sitt besta færi hingað til. Eftir góða pressu á varnarmenn Rússa upp við vítateignn komst Eiður Smári í gott færi en skot hans var slakt og boltinn vel framhjá.

50. Rússar í vænlegri sókn sem endaði með skoti frá Igor Denisov yfir markið.

46. Engar breytingar hafa verið gerðar á íslenska liðinu en Rússar hafa gert nokkrar breytingar á sínu liði.

45. Búið er að flauta til leikhlés. Rússar eru 1:0 yfir með marki sem kom á markamínútunni.

43. MARK!! Rússar voru að komast yfir. Íslendingar töpuðu boltanum á miðsvæðinu og Rússar geystust í sóknina sem endaði með því að Roman Shirokov skoraði framhjá Hannesi með hnitmiðaðri innanfótarspyrnu.

41. Hannes Þór Halldórsson átti ekki í vandræðum með að verja skot frá Bystrov rétt utan vítateigs.

35. Staðan er 0:0. Gylfi Þór Sigurðsson var rétt í þessu að taka aukaspyrnu rétt utan vítateigs. Boltinn lenti í varnarveggnum og Rússar bægðu hættunni frá. Leikurinn er annars með rólegra móti og engin teljandi færi hafa litið dagsins ljós. Íslenska liðið er vel skipulagt og góð barátta í því.

27. Fyrirliðinn Igor Denisov átti gott skot rétt utan teigs en boltinn fór naumlega framhjá.

25. Það er enn allt með kyrrum kjörum. Staðan er markalaus þar sem hvorugu liði hefur tekist að skapa sér marktækifæri. Rússar eru sem fyrr miklu meira með boltann og reyna mikið að sækja upp hægri vænginn en íslenska vörnin er þétt fyrir og hefur ekki gefið færi á sér hingað til. Íslendingar voru að fá sína fyrstu hornspyrnu en ekkert varð úr henni.

15. Staðan er 0:0. Íslendingar hafa verið að koma aðeins meira inn í leikinn síðustu mínúturnar en engin færi hafa litið dagsins ljós. Rússar hafa verið 66% með boltann það sem af er.

5. Leikurinn fer afar rólega af stað. Staðan er 0:0 þar sem Rússar hafa verið töluvert meira með boltann.

1. Spænski dómarinn Antonio Miguel Mateu Lahoz er búinn að flauta leikinn á, 7 mínútum á eftir áætlun. Íslendingar leika í bláum treyjum og bláum buxum en Rússar eru alrauðir.

Þetta er sjötta viðureign þjóðanna á knattspyrnuvellinum. Íslendingar hafa unnið einu sinni, Rússar þrisvar og einu sinni varð jafntefli niðurstaðan.

Lið Rússa er skipað leikmönnum sem spila eingöngu í heimalandinu en þjálfari rússneska liðsins er enginn annar en Ítalinn Fabio Capello.

Lið Íslands: Hannes Þór Halldórsson - Birkir Már Sævarsson, Ragnar Sigurðsson, Hjálmar Jónsson, Ari Freyr Skúlason - Eiður Smári Guðjohnsen, Birkir Bjarnason, Emil Hallfreðsson, Gylfi Þór Sigurðsson - Kolbeinn Sigþórsson (F), Alfreð Finnbogason.
Varamenn: Gunnleifur Gunnleifsson, Hólmar Örn Eyjólfsson, Guðlaugur Victor Pálsson, Arnór Sveinn Aðalsteinsson, Helgi Valur Daníelsson, Jóhann Berg Guðmundsson, Arnór Smárason.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert