Eyjólfur Sverrisson, þjálfari 21-árs landsliðsins í knattspyrnu, hefur tilkynnt byrjunarlið Íslands fyrir vináttulandsleikinn gegn Wales sem hefst í Llanelli klukkan 15.00.
Sverrir Ingi Ingason, varnarmaður úr Breiðabliki, er fyrirliði í þessum fyrsta leik liðsins sem býr sig undir undankeppni Evrópumótsins sem hefst síðar í vetur.
Athygli vekur að fjórir 17 ára piltar eru í byrjunarliðinu, þeir Hjörtur Hermannsson, Orri Sigurður Ómarsson, Oliver Sigurjónsson og Rúnar Alex Rúnarsson markvörður. Þeir voru allir lykilmenn í U17 ára landsliðinu sem komst í 8 liða úrslit Evrópukeppninnar fyrir ári og þeir Orri og Oliver spiluðu á dögunum í fyrsta skipti með aðalliði danska úrvalsdeildarfélagsins AGF. Hjörtur er í herbúðum hollenska stórliðsins PSV Eindhoven.
Liðið er þannig skipað:
Markvörður: Rúnar Alex Rúnarsson (KR).
Varnarmenn: Sverrir Ingi Ingason, fyrirliði, (Breiðablik) Hjörtur Hermannsson (PSV), Orri Sigurður Ómarsson (AGF), Hörður Björgvin Magnússon (Juventus).
Miðjumenn: Guðmundur Þórarinsson (Sarpsborg), Andri Rafn Yeoman (Breiðabliki), Emil Pálsson (FH), og Oliver Sigurjónsson (AGF).
Sóknarmenn: Emil Atlason (KR) og Kristján Gauti Emilsson (FH).
Varamenn: Árni Freyr Ásgeirsson (Keflavík), Brynjar Gauti Guðjónsson (ÍBV), Arnór Ingvi Traustason (Keflavík), Gunnar Þorsteinsson (Ipswich), Hólmbert Aron Friðjónsson (Fram), Árni Vilhjálmsson (Breiðabliki), Sindri Snær Magnússon (Breiðabliki).