Lior Refaelov, sóknarmaður belgíska knattspyrnuliðsins Club Brugge, segir að Eiður Smári Guðjohnsen hafi lagt grunninn að marki sínu í leiknum við OH Leuven á laugardagskvöldið, áður en honum var skipt inná.
Eiður kom inná um miðjan síðari hálfleik og hans fyrsta verk var að gefa boltann á Refaelov sem kom Club Brugge í 2:1.
„Sendingin frá Eiði var mjög góð. Áður en honum var skipt inná kallaði hann í mig: Rafa, tökum veggspil. Svo kom hann inná, við gerðum nákvæmlega það sem hann sagði og ég skoraði. Betra gat það ekki verið," sagði ísraelski sóknarmaðurinn við fréttamenn eftir leikinn.