Jóhann Berg Guðmundsson lék í kvöld stórt hlutverk í því að tryggja AZ Alkmaar sæti í úrslitaleik hollensku bikarkeppninnar í knattspyrnu gegn PSV Eindhoven þegar hann skoraði á lokamínútunum gegn Hollandsmeisturum Ajax á útivelli í Amsterdam.
Jóhann kom inná sem varamaður á 83. mínútu þegar staðan var 1:0 fyrir AZ og gerði heldur betur vart við sig því hann fékk gula spjaldið á 86. mínútu, áður en hann sendi boltann í mark Ajax á 88. mínútu, 2:0. Jozy Altidore innsiglaði síðan óvæntan en magnaðan sigur AZ í uppbótartímanum, 3:0, með öðru marki sínu í leiknum.
Kolbeinn Sigþórsson hóf líka leikinn á varamannabekknum, gegn sínu gamla félagi, en kom inná sem varamaður á 69. mínútu.
Fyrr í kvöld vann PSV útisigur á Zwolle, 3:0, í hinum leik undanúrslitanna. Rúnar Már Sigurjónsson var ekki í leikmannahópi Zwolle.