Birkir Bjarnason fékk ekki tækifæri hjá Bruno Nobili, nýjum þjálfara Pescara, þegar liðið lék í dag fyrsta leikinn undir hans stjórn í ítölsku A-deildinni í knattspyrnu.
Cristiano Bergodi var sagt upp störfum í síðustu viku en hann hafði verið með Birki sem fastamann á miðjunni hjá sér. Nobili var ekki sama sinnis og Birkir mátti dúsa á varamannabekknum allan leikinn gegn Atalanta í dag.
Nýi þjálfarinn náði ekki að snúa gengi Pescara við. Atalanta vann leikinn, 2:1, og Pescara situr áfram í fallsæti, er á botninum ásamt Siena og Palermo en liðin eru öll með 21 stig. Genoa er næst fyrir ofan með 26 stig.