Nýliðar Start, með Matthías Vilhjálmsson og Guðmund Kristjánsson innanborðs, náðu óvæntu jafntefli gegn Rosenborg á útivelli í kvöld en liðin skildu jöfn, 1:1, á Lerkendal í Þrándheimi í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.
Rosenborg hafði unnið þrjá fyrstu leiki sína og stefndi í fjórða sigurinn eftir að norski landsliðsmaðurinn Tarik Elyounoussi skoraði strax á 8. mínútu. Espen Börufsen náði að jafna metin fyrir Start þremur mínútum fyrir leikslok.
Matthías lék allan leikinn með Start og Guðmundur fyrstu 72 mínúturnar. Lið þeirra hefur ekki tapað í fyrstu þremur leikjum sínum, er með 5 stig eftir einn sigur og tvö jafntefli.