Markvörður AIK í Svíþjóð fannst látinn

Ivan Turina.
Ivan Turina. Ljósmynd/aik.se

Ivan Turina markvörður sænska knattspyrnuliðsins AIK í Stokkhólmi lést í nótt og var banameinið hjartaslag að því er fjölmiðlar í Svíþjóð greina frá en það hefur ekki fengist staðfest hvað dró markvörðinn til dauða.

Turina fannst látinn á heimili sínu og að því er fram kemur í sænska blaðinu Aftonbladet er ekki talið lát hans hafi orðið til með saknæmum hætti en lögreglan í Stokkhólmi vinnur að rannsókn málsins. Lögreglunni barst tilkynning um lát Turina klukkan 7.30 að staðartíma í morgun.

„Hjarta Ivans stöðvaðist í nótt og tókst læknum ekki að fá það í gang aftur,“ segir Björn Wesström íþróttastjóri hjá AIK í viðtali við sænska blaðið Expressen.

Turina var 32 ára gamall frá Króatíu sem gekk í raðir AIK árið 2010 og varð samherji landsliðsmannsins Helga Vals Daníelssonar. Turina varði til að mynda mark AIK í Evrópuleikjunum gegn Íslandsmeisturum FH á síðustu leiktíð

Hann lék 65 leiki fyrir AIK í sænsku úrvalsdeildinni og í febrúar gerði hann nýjan samning sem gilti til ársins 2016. Turina átti einn leik að baki með króatíska landsliðinu en lengst af sínum ferli lék hann með liði Croatia Zagreb í heimalandi sínu.

Turina lætur eftir sig eiginkonu og tvær dætur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert