Guðmundur Þórarinsson skoraði fyrir Sarpsborg sem vann sigur á Sandnes Ulf, 3:2, í Íslendingaslag í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.
Gestirnir í Sandnes tóku forystuna, 0:1, með marki Tommy Hoiland á 22. mínútu en Guðmundur jafnaði metin fyrir Sarpsborg á 54.
Hoiland kom gestunum aftur yfir þremur mínútum síðar en Sarpsborg bætti við tveimur mörkum á 60. og 64. mínútu og vann góðan heimasigur.
Þórarinn Ingi Valdimarsson var einnig í byrjunarliði Sarpsborg en Ásgeir Börkur Ásgeirsson var ekki í leikmannahópnum. Steinþór Freyr Þorsteinsson var að vanda í byrjunarliði Sandnes Ulf.
Nýliðar Sarpsborg eru í fimmta sæti eftir átta umferðir með þrettán stig og Sandnes er í 15. og næstneðsta sæti með átta stig.
Indriði Sigurðsson stóð vaktina í vörn Viking sem gerði markalaust jafntefli við Haugesund á heimavelli. Jón Daði Böðvarsson kom inn á sem varamaður á 60. mínútu fyrir Viking sem er í sjötta sæti með þrettán stig.
Þá var Pálmi Rafn Pálmason einnig í byrjunarliði Lilleström sem gerði jafntefli við Sogndal, 2:2, á heimavelli. Lilleström er í sjöunda sæti með ellefu stig.