Egil „Drillo“ Olsen landsliðsþjálfari Norðmanna er ekki búinn að gefa upp alla von að Norðmönnum takist að ná einu af tveimur efstu sætunum í riðli okkar Íslendinga í undankeppni HM.
Norðmenn héldu sér á lífi í riðlinum með því gera 1:1 jafntefli við Albani í Tírana í Albaníu í gærkvöld þar sem Norðmenn jöfnuðu metin undir lokin.
„Þetta var lélegur leikur hjá okkur og þá sérstaklega í fyrri hálfleik. Við gerðum allt of mikið af klaufalegum mistökum og það voru margir leikmenn langt frá sínu besta. En okkur tókst að ná í stig og þar með er enn möguleiki fyrir hendi að komast í úrslitakeppnina,“ sagði Olsen eftir leikinn.
Sviss er efst í riðlinum með 11 stig, Albanía 10, Ísland 9, Noregur 8, Slóvenía 6 og Kýpur rekur lestina með 4 stig. Í dag mætast Sviss og Kýpur í Sviss. Eftir þann leik eru fjórar umferðir eftir og Norðmenn eiga þrjá leiki á heimavelli.