Ítalska félagið Pescara nýtti sér forkaupsrétt sinn til að kaupa landsliðsmanninn Birki Bjarnason frá Standard Liege eins og greint hefur verið frá. Birkir hefur hins vegar engan áhuga á að leika áfram hjá Pescara eftir að liðið féll niður í B-deild og eru kaupin eins konar milliskref.
Forráðamenn Pescara, sem Birkir var á láni hjá á síðustu leiktíð, eru þess fullvissir að þeir muni geta selt Birki fyrir hærri fjárhæð en þeir greiddu fyrir kappann, jafnvirði 143 milljóna króna.
„Birkir er góður leikmaður og ef Pescara selur hann áfram mun félagið þéna vel á því. Það er ekki ætlunin að hann spili í B-deildinni, þótt hann hafi gert samning til tveggja ára,“ sagði Jim Solbakken, umboðsmaður Birkis.
„Við erum að vinna með félögum í Englandi, Ítalíu og Þýskalandi. Þetta eru allt félög með lið í efstu deild,“ sagði Solbakken jafnframt við Aftenbladet.