Heimamenn í Brasilíu komust í kvöld í úrslitaleik Álfukeppninnar með 2:1 sigri á Úrúgvæ. Þeir mæta þar sigurvegaranum úr leik Spánar og Ítalíu sem fram fer annað kvöld.
Það var Paulinho sem tryggði Brasilíumönnum sigur í kvöld með skallamarki rúmum fimm mínútum fyrir leikslok í þessum mikla grannaslag.
Fred kom Brasilíu yfir rétt fyrir lok fyrri hálfleiks þegar hann fylgdi á eftir skoti frá Neymar og skoraði nokkuð auðveldlega. Úrúgvæ hafði fengið vítaspyrnu fyrr í leiknum en Julio César varði meistaralega frá Diego Forlán úti við stöng.
Edinson Cavani jafnaði metin fyrir Úrúgvæ snemma í seinni hálfleik með góðu skoti úr teignum eftir að Thiago Silva hafði átt misheppnaða sendingu. Það var hins vegar Paulinho sem skoraði sigurmarkið eins og áður segir.
Úrúgvæ mun leika um bronsverðlaunin.