Helgi Valur Daníelsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, er á leiðinni til portúgalska félagsins Belenenses frá AIK í Svíþjóð, samkvæmt frétt portúgalska vefmiðilsins Maisfutebol.pt, sem segir að Belenenses hafi skýrt frá þessu í gærkvöld.
Ekki mun hafa verið gengið frá samningi en sagt er að Helgi muni koma til Lissabon á þriðjudaginn til að gangast undir læknisskoðun og síðan verði gengið frá samningum.
Helgi Valur, sem verður 32 ára í næsta mánuði, hefur leikið með AIK frá 2010 en áður spilaði hann með Hansa Rostock í Þýskalandi, sænsku liðunum Elfsborg og Öster, Peterborough í Englandi og Fylki. Hann á 27 landsleiki að baki fyrir Íslands hönd.
Belenenses vann portúgölsku B-deildina með yfirburðum í vetur, fékk 21 stigi meira en næsta lið, og leikur í efstu deild á komandi tímabili, þar sem félagið hefur yfirleitt spilað. Liðið er frá höfuðborginni Lissabon og hefur þar staðið í skugganum af stórveldunum Benfica og Sporting. Félagið taldist þó áður til stórveldanna í Portúgal og varð fjórum sinnum meistari á árunum 1927 til 1946. Félagið hefur þrisvar orðið bikarmeistari, síðast árið 1989. Leikvangur Belenenses, Estádio do Restelo, rúmar 25 þúsund áhorfendur.