Spænski miðjumaðurinn Isco, sem búist er við að gangi til liðs við Real Madrid frá Málaga innan skamms, virðist ekki mikill stuðningsmaður félagsins ef marka má ummæli hans í gegnum tíðina.
Eftir að ljóst varð að Isco færi að öllum líkindum til liðs við Real voru rifjuð upp ummæli hans í viðtali á sínum tíma þar sem hann lýsti sjálfum sér sem fjandmanni Madridar-liðsins vegna þess hve hrokafullt félagið væri.
Þá hefur Isco lýst yfir mikilli aðdáun á Argentínumanninum Lionel Messi, leikmanni erkifjenda Real í Barcelona, og gekk svo langt að nefna hundinn sinn eftir honum.
„Ég nefndi hundinn minn Messi vegna þess að Messi er bestur í heimi og það á einnig við um hundinn minn,“ sagði Isco.