Danska meistararliðið FC Kaupmannahöfn er búið að finna staðgengil íslenska landsliðsinsmannsins Sölva Geirs Ottesen sem er farinn frá félaginu en FCK samdi í dag við Svíann Olof Mellberg til tveggja ára.
Sölvi yfirgaf FCK eftir tímabilið en hann var í frystinum hjá liðinu nánast alla síðustu leiktíð. Tveir íslenskir landsliðsmenn eru þó áfram á mála hjá meisturunum, Ragnar Sigurðsson og Rúrik Gíslason.
Mellberg, sem lengi var fyrirliði sænska landsliðsins, kemur til FCK frá Villareal á Spáni en áður hefur hann spilað með Aston Villa, Juventus og Olympiacos. Hann á að baki 117 landsleiki fyrir Svíþjóð og hefur spilað á sex stórmótum.
Þessi 35 ára gamli miðvörður lagði landsliðsskóna á hilluna eftir EM 2012. Hann tekur treyju númer fimm hjá FCK en í henni spilaði Sölvi Geir undanfarin þrjú ár.