Svissneskir fjölmiðlar fara ófögrum orðum um varnarmenn svissneska landsliðsins eftir 4:4-jafnteflið gegn Íslandi í undankeppni HM í knattspyrnu í kvöld. Þeir segja Sviss hafa kastað sigrinum frá sér eftir að hafa komist í 4:1 í seinni hálfleik.
Þó Jóhanni Berg Guðmundssyni sé víða hrósað sem manni leiksins eftir að hafa skoraði þrennu fyrir Ísland beinast fyrirsagnirnar í Sviss frekar að klúðri heimamanna og varnarleik liðsins.
„Vandræðalegt! Sviss glutraði niður 4:1-forystu gegn Íslandi,“ er fyrirsögnin á vef hins útbreidda blaðs Blick. Á vef 20 minuten bregða menn fyrir sig rími í fyrirsögninni sem er „vorne hui, hinten pfui“ og er átt við að sóknarleikurinn hafi komið skemmtilega á óvart en varnarleikurinn verið „skítlélegur“.
Á vefnum 24heures.ch velta menn því fyrir sér hvar Ricardo Rodriguez, varnarmaður Wolfsburg, hafi eiginlega verið þegar svissneska liðið átti að verjast. Jóhann hafi hrist hann af sér í fyrsta markinu sínu sem og í öðru markinu, og Rodriguez hafi svo verið hvergi nærri þegar Jóhann jafnaði metin með glæsiskoti sínu í uppbótartíma.
Blaðamaður bernerzeitung.ch sagði að eftir fjórða mark Svisslendinga hefði spurningin bara átt að snúast um hve stór sigur þeirra yrði. Í fyrirsögn þar segir að frammistaða Sviss hafi verið skammarleg.