Hitzfeld: Norðmenn líklegastir ásamt okkur

Ottmar Hitzfeld situr fyrir svörum með fréttamönnum í gær.
Ottmar Hitzfeld situr fyrir svörum með fréttamönnum í gær. AFP

„Við erum búnir að jafna okkur eftir leikinn við Ísland og eru klárir í að mæta Noregi. Það var enginn skúrkur heldur spilaði allt liðið illa eftir að hafa skilað fínni frammistöðu í 60 mínútur,“ sagði Ottar Hitzfeld landsliðsþjálfari Svisslendinga við fréttamenn í Noregi í gær en í kvöld mætast Noregur og Sviss í undankeppni HM í Ósló en þjóðirnar leika í riðli með Íslendingum.

Með sigri í kvöld standa Svisslendingar ákaflega vel að vígi í toppsæti riðilsins en þeir hafa 15 stig í efsta sæti, Noregur 11, Albanía 10, Ísland 10, Slóvenía 9 og Kýpur rekur lestina með 4 stig.

„Við höfum komið okkur í góða stöðu í riðlinum og erum í ökumannssætinu. Ég tel okkur hafa gert góða hluti í undankeppninni til þessa og ásamt okkur þá tel ég líklegast að Norðmenn verði í tveimur efstu sætunum þegar upp er staðið en riðilinn er samt galopinn. Norðmenn eru sterkir og sérstaklega í föstum leikatriðum og skipulögðum varnarleik en þeir hafa líka bætt sig með stuttu og góðu spili. Ég tel að Norðmenn geti unnið hvaða lið sem er í heiminum,“ sagði Hitzfeld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert