Malmö steig skrefi nær sænska meistaratitlinum í knattspyrnu kvenna með því að vinna góðan útisigur á Kristianstad í slag Íslendingaliðanna, 1:0, í dag.
Hollenski framherjinn Manon Melis skoraði sigurmarkið á 42. mínútu eftir sendingu sænsku landsliðskonunnar Therese Sjögran. Sara Björk Gunnarsdóttir var tvisvar nærri því að bæta við marki fyrir Malmö en hún lék allan tímann og fékk gula spjaldið í lok uppbótartímans. Þóra B. Helgadóttir varði mark liðsins að vanda.
Sif Atladóttir fyrirliði Kristianstad og Margrét Lára Viðarsdóttir léku allan leikinn með Kristianstad en báðar spiluðu þær á miðjunni að þessu sinni. Guðný Björk Óðinsdóttir er frá keppni vegna meðsla.
Malmö er þá með 48 stig og á þrjá leiki eftir en Tyresö, sem mætir Mallbacken í dag, er með 41 stig og á fjóra leiki eftir.
Kristianstad, undir stjórn Elísabetar Gunnarsdóttur, er í 9. sæti með 20 stig, sex stigum fyrir ofan fallsæti deildarinnar.
Hallbera Guðný Gísladóttir lék allan leikinn með Piteå sem gerði jafntefli, 1:1, við Örebro á útivelli. Piteå er í 8. sæti með 22 stig.
Þá lék Katrín Jónsdóttir sinn annan heila leik á þremur dögum í gær þegar Umeå vann Sunnanå á útivelli, 1:0. Umeå er í 6. sæti með 25 stig.