Landsliðsmaðurinn Rúrik Gíslason var á skotskónum þegar dönsku meistararnir í FC Köbenhavn unnu SönderjyskE 2:1 á Parken í dag.
Rúrik kom FCK yfir í leiknum með glæsilegu marki en hann þrumaði boltanum upp í þaknetið af um 30 metra færi. FCK komst í 2:0 á 61. mínútu en gestirnir náðu að minnka muninn í lokin.
Rúrik var skipt af velli á 87. mínútu undir dynjandi lófataki. Næst á dagskrá hjá honum er undirbúningur fyrir landsleik Íslands við Kýpur á Laugardalsvelli á föstudagskvöld.