Greta Mjöll hætt knattspyrnuiðkun

Greta Mjöll Samúelsdóttir sækir hér að marki eins og hún …
Greta Mjöll Samúelsdóttir sækir hér að marki eins og hún var þekkt fyrir. mbl.is/Jim Smart

Greta Mjöll Samúelsdóttir, leikmaður og fyrirliði bikarmeistara Breiðabliks, er hætt knattspyrnuiðkun. Þetta staðfesti hún á Facebook síðu sinni í dag og segir ákvörðunina til komna vegna þrálátra meiðsla í hné.

„Í dag opinbera ég eina stærstu og erfiðustu ákvörðun lífs míns. Ég hef ákveðið að nú sé fótboltaferli mínum lokið. Fótboltanum hef ég mikið að þakka og hann hefur gefið mér óskaplega margt. Óteljandi dásamlegar minningar, ferðalög útum allan heim, menntun sem mun alltaf nýtast mér, heilmikinn lærdóm á lífið og svo auðvitað besta af öllu, vini fyrir lífstíð,“ sagði Greta Mjöll í færslu sinni.

Greta hefur alla tíð leikið með Breiðablik, en hún lék allt í allt 129 leiki í meistaraflokki hér á landi og skoraði í þeim 70 mörk. Hún hefur einnig spilað 28 leiki með A-landsliði Íslands og skorað í þeim þrjú mörk, en hún var meðal annars kölluð inn í landsliðshópinn að nýju nú í haust.

Hún hefur þó ávallt barist við mikil meiðsli og segir það spila stóran þátt í ákvörðun sinni. „Álag og meiðsli hafa tekið sinn toll og ég hef barist við þetta hné mitt núna í 5 ár. Nú lýt ég í lægra haldi. Sársauki á hverjum degi er afar lýjandi og tekur einnig heilmikið á sálina.“

Greta kom í lokin fram þökkum til liðsfélaga sinna.

„Ég kveð stelpurnar í Breiðablik með tár á hvarmi og söknuð í hjarta. Ég gæti ekki verið stoltari af því að hafa fengið að vera fyrirliði þessa frábæra liðs og verða með þeim Bikarmeistari í sumar. Ég vil einnig þakka landsliðunum öllum fyrir dásamlega tíma frá því að ég var bara 14 ára. Svo var það auðvitað bara ómetanlegt að hafa skyndilega fengið að hoppa aftur í bláa liðið núna í haust og taka lokaskrefin með þeim í A-landsliðinu,“ sagði Greta Mjöll í færslu sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert