Högli: Eiður er lifandi goðsögn

„Við viljum vinna. Við höfum ekki gert mikið af því upp á síðkastið,“ sagði varnarmaðurinn Tom Högli, leikmaður norska landsliðsins í knattspyrnu fyrir leikinn við Ísland í lokaumferð undankeppni HM í knattspyrnu á þriðjudagskvöld. Högli er liðsfélagi Eiðs Smára Guðjohnsen hjá Club Brugge og segir Eið lifandi goðsögn.

„Ég býst við mjög erfiðum leik gegn góðum leikmönnum. Við mætum mjög góðu, skipulögðu, íslensku liði sem á von um að komast í umspilið,“ sagði Högli og hló aðspurður hvort það yrði líkast martröð ef Ísland tryggði fagnaði sæti í umspilinu á þjóðarleikvangi Norðmanna á þriðjudagskvöld.

„Ég segi nú ekki að það yrði martröð en við viljum alltaf vinna Ísland, nágranna okkar, það er mikilvægt. Við þekkjum íslenska liðið mjög vel og vitum að þeir eru mjög góðir, sérstaklega fram á við,“ sagði Högli.

Eins og áður segir leikur Högli með Eiði Smára hjá Club Brugge í Belgíu og er óhætt að segja að Eiður sé í miklum metum hjá Norðmanninum.

„Ég kann mjög vel við hann bæði sem leikmann og sem manneskju. Hann er lifandi goðsögn og ég hlakka til að mæta honum. Ég sendi honum skilaboð eftir síðasta leik um að ég hlakkaði til að sjá einhverja töfra frá honum á þriðjudaginn. Hann er mjög góður leikmaður,“ sagði Högli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert