Þórir biðst afsökunar

Gríðarleg eftirspurn er eftir miðum á leik Íslands við Króatíu.
Gríðarleg eftirspurn er eftir miðum á leik Íslands við Króatíu. mbl.is/Eva Björk

KSÍ hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna miðasölu á leik Íslands og Króatíu í umspilinu um laust sæti á HM karla í knattspyrnu.

Þórir Hákonarson framkvæmdastjóri KSÍ skrifar undir yfirlýsinguna. Hann segir meðal annars að um mistök hafi verið að ræða að hefja miðasölu kl. 4 í nótt og biðst afsökunar á því.

Af þeim 9.800 sætum sem í boði eru á Laugardalsvelli segir Þórir að 1.000 miðar fari til mótherja Íslands, 1.500 til samstarfsaðila KSÍ og aðrir 1.500 til handhafa A-passa, Tólfunnar, fyrirtækja, leikmanna, fyrrverandi landsliðsmanna og annarra boðsgesta. Í sölu á midi.is hafi 5.000 miðar farið. Ekki kemur fram hvernig þeir 800 miðar sem upp á vantar voru seldir.

Yfirlýsinguna í heild má lesa hér að neðan:

Uppselt er á leik Íslands og Króatíu sem fram fer á Laugardalsvelli þann 15. nóvember nk.  Mikil óánægja hefur komið fram um hvernig staðið var að miðasölu á leikinn en hún hófst kl. 4 í nótt.

Ljóst hefur verið í mjög langan tíma að eftirspurn eftir miðum yrði mun meiri en framboðið og því var ákveðið í samráði við eigenda miðasölukerfis, midi.is, að reyna að tryggja með einhverjum hætti að miðasölukerfið þyldi álagið sem augljóslega gæti orðið á það ef mikill fjöldi fólks reyndi að kaupa miða á sama tíma.  Hugmyndin var einfaldlega sú að reyna að tryggja jafna miðasölu fram eftir morgni og gekk það eftir þar til um kl. 7 í morgun þegar um 3.000 miðar seldust á um 20 mínútum og á þeim tíma var gríðarlegt álag á kerfinu.

Mjög margir eru vonsviknir yfir því að hafa ekki náð í miða á leikinn sem eðlilegt er og deginum ljósara að Laugardalsvöllur er of lítill fyrir slíkan viðburð en reikna má með að eftirspurn eftir miðum hafi verið á bilinu 20-25 þúsund miðar.  Mótherjar Íslands fá 1.000 miða á leikinn, samstarfsaðilar KSÍ um 1.500 miða og önnur fyrirtæki, handhafar A passa, Tólfan, stuðningsmannaklúbbur landsliðsins,  fjölmiðlar, leikmenn, fyrrverandi landsliðsmenn og aðrir boðsgestir um 1.500 miða samtals.  Í sölu fara því í heild um 8.000 miðar og á netið fara ríflega 5.000 miðar sem er í líkingu við venjubundna sölu þegar mótherji tekur svo marga miða.

KSÍ vildi gefa sem flestum kost á því að kaupa miða á völlinn og var sú ákvörðun tekin að hækka ekki miðaverð þrátt fyrir að vitað væri að eftirspurn væri mjög mikil.  Jafnframt var sú ákvörðun tekin að selja fyrirtækjum algjöran lágmarksfjölda miða en eftirspurn frá fyrirtækjum skipti mörgum þúsundum miða.

Því miður er Laugardalsvöllur of lítill til þess að taka við viðburðum sem þessum og því miður eru margir vonsviknir sem ekki fengu miða á þennan stóra knattspyrnuviðburð.  Í ljósi þessarar reynslu verður að taka alvarlega upp umræðu um að stækka Laugardalsvöll og hugsanlega hátta miðasölu með öðrum hætti, t.d. bjóða öllum sem þess óska að panta tiltekinn fjölda miða og draga einfaldlega úr öllum miðapöntunum líkt og viðgengist hefur í einhverjum tilfellum á knattspyrnuleiki erlendis.  Með þeim hætti sitja allir við sama borð en það mun ekki breyta þeirri staðreynd að því miður komast færri að en vilja við núverandi aðstæður.

Þrátt fyrir mikil og skiljanleg vonbrigði má það ekki skyggja á góðan árangur liðsins og þá miklu möguleika sem felast í góðum úrslitum í næstu tveimur leikjum gegn Króatíu.  Ég hvet því alla til þess að fylkja sér bak liðinu og þeim sem ekki komast á völlinn að fylgjast með honum í beinni útsendingu á RÚV.

Undirritaður tekur alfarið ábyrgð á því að miðasalan fór í gang kl. 4 í nótt en eins og áður segir var það gert í góðri trú um að með þeim hætti væri hægt að láta miðasölu ganga áfallalaust fyrir sig.  Í ljósi þeirrar óánægju sem fram hefur komið er ljóst að það voru mistök og biðst ég afsökunar á því.  Það mun þó ekki breyta megin atriði þessa máls og það er að núverandi aðstaða á Laugardalsvelli annar ekki þeirri eftirspurn sem orðin er eftir því að mæta á leiki hjá íslenska landsliðinu.  Við því verður að bregðast og þrýsta á þau yfirvöld sem fara með málefni Laugardalsvallar, þjóðarleikvangs Íslands, að taka alvarlega umræðu um hvernig hægt er að auka framboð á miðum á landsleiki Íslands.

Áfram Ísland!

Þórir Hákonarson

framkvæmdastjóri KSÍ

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert