Niko Kovac, nýráðinn landsliðsþjálfari Króata í knattspyrnu, hefur gert víðreist að undanförnu, eftir að hann tók við króatíska liðinu af Igor Stimac. Verkefnið hjá Kovac er að koma Króötum í lokakeppni HM í Brasilíu á næsta ári en til þess þarf hann að bera sigurorð af Íslendingum í umspilsleikjunum tveimur, á Laugardalsvellinum 15. nóvember og í Zagreb fjórum dögum síðar.
Kovac hefur heimsótt marga af króatísku landsliðsmönnunum og horft á þá spila og í króatískum fjölmiðlum kemur m.a. fram að hann hafi ráðfært sig mikið við Dario Srna, hinn reynda leikmann Shakhtar Donetsk, sem var einmitt á ferðinni með liði sínu gegn Bayer Leverkusen í Meistaradeild Evrópu í fyrrakvöld.
Kovac kveðst hinsvegar ekki vilja ræða mikið um króatíska liðið við fjölmiðla því hann viti að Lars Lagerbäck, þjálfari Íslands, lesi allt og fylgist grannt með. Kovac er afar varkár í yfirlýsingum um leikina og segir að Króatar þurfi að gæta sín á sterku liði Íslands.
Hann kveðst hinsvegar búa yfir miklum upplýsingum um lið Íslands og er sagður hafa leitað ráða hjá landsliðsþjálfurum Slóveníu og Sviss um hvernig best væri að spila gegn því.
Haft er eftir Kovac að hann hafi verið mjög undrandi á þeirri ákvörðun André Villas-Boas, knattspyrnustjóra Tottenham, að vera með Gylfa Þór Sigurðsson á varamannabekknum gegn Everton á sunnudaginn því Gylfi sé frábær leikmaður. Eins talar hann vel um Kolbein Sigþórsson og Alfreð Finnbogason og segir að það séu framherjar sem Króatar verði að gæta sín vel á. vs@mbl.is