Tony Knapp, Englendingurinn sem þjálfaði íslenska landsliðið í knattspyrnu á árum áður, er orðinn 77 ára gamall, býr í Noregi og er fyrir skömmu hættur að þjálfa þar. Hann bíður spenntur eftir landsleikjum Íslands og Króatíu.
Knapp kom Íslandi á kortið með óvæntri frammistöðu liðsins á árunum 1974-77 og var aftur með liðið árin 1984 og 1985. Sigur Ísland á firnasterku liði Austur-Þýskalands, 2:1, undir hans stjórn sumarið 1975 hefur lengi verið í minnum hafður.
Hann kom til Íslands í miðju þorskastríði, fyrst til að þjálfa KR-inga. „Það var svo sannarlega ekki það besta að vera Englendingur á Íslandi um þetta leyti því tilfinningarnar í þessu máli voru miklar. En maður þurfti að vera á staðnum til að átta sig á því hve geysilega mikilvægar fiskveiðarnar voru Íslendingum um þetta leyti. Nánast allir unnu í fiski eða í einhverju sem tengdist honum á þessum árum. Fiskurinn var það sem Íslendingar stóðu og féllu með," sagði Knapp í viðtali við BBC í dag.
„Ég þjálfaði Knattspyrnufélag Reykjavíkur um þetta leyti og var síðan beðinn um að taka að mér starf landsliðsþjálfara. Ég fékk 6 þúsund pund í árslaun og vegna takmarkaðra fjárráða mátti ég bara fara í eina ferð á ári til að skoða mótherjana.
Vorum með einn atvinnumann í liðinu
Við vorum bara með einn atvinnumann í liðinu árið 1974. Ég fór til að fylgjast með leikjum í svo litlum bæjum að þið mynduð ekki trúa því. En það var eitt sem Íslendingar höfðu, og það var þessi gífurlegi vilji. Ég man ekki eftir einu einasta landsleik, jafnvel ekki gegn einhverjum af bestu liðum Evrópu, þar sem við vorum leiknir grátt," segir Knapp og rifjar upp ævintýrið gegn Austur-Þjóðverjum, sem árinu áður höfðu unnið Vestur-Þjóðverja í lokakeppni heimsmeistaramótsins og komist þar í átta liða úrslitin.
„Þetta var byrjunin á frábærum tíma. Þetta var allt dálítið skrýtið til að byrja með en einhvern veginn fóru Íslendingar að líta á mig sem nokkurs konar hetju. Ef mér tókst að efla sjálfstraust leikmannanna, var hálfur sigur unninn. Við fórum til Frakklands og spiluðum í París og ég sagði við þá: „Ef við töpum í dag er ég hættur." Leikmennirnir horfðu á mig eins og ég væri klikkaður. Sennilega var ég það!
Leikmennirnir héldu að ég þyrfti að fara til sálfræðings, en ég varð að breyta hugarfari þeirra. Og svo var ég orðlaus þegar íslenska knattspyrnusambandið heiðraði mig með sínu æðsta heiðursmerki, fyrstum útlendinga."
Knapp segir að ef Ísland nái að slá Króatíu út úr umspilinu sé það afrakstur 40 ára vinnu.
„Það myndi skipta íslensku þjóðina öllu máli ef liðið kæmst á HM í Brasilíu. Að hugsa sér riðil á HM þar sem myndu mætast Brasilía, England, kannski Gana eða Fílabeinsstöndin, og svo Ísland er stórbrotið. Ég vona af öllu mínu hjarta að þeim takist þetta. Íslendingar eru harðgerð þjóð og ég vona að það skili sér í þessu umspili," segir Tony Knapp.