Portúgalska goðsögnin Eusebio lést í dag, 71 árs gamall. Portúgalska knattspyrnuliðið Benfica sem hann lék lengi með greindi frá þessu í morgun.
Eusebio varð markakóngur á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu sem haldið var á Englandi árið 1966 en ári áður var hann kjörinn knattspyrnumaður ársins í Evrópu.
Á ferli sínum með Benfica varð hann Evrópumeistari árið 1962 en hann kom hingað til lands árið 1968 og lék með Benfica gegn Val á Laugardalsvellinum þar sem rúmlega 18.000 manns sáu liðin gera markalaust jafntefli.
Eusebio, sem var kallaður „svarti pardusinn“ á sínum tíma, var lykilmaður í landsliði Portúgals, sem fékk bronsið á HM í Englandi 1966, og í liði Benfica, sem lék fjórum sinnum til úrslita um Evrópumeistaratitilinn á hans tíma þar.